„Það var kominn tími til“

FSu lagði Hamar í stórskemmtilegum toppslag í 1. deild karla í körfubolta í kvöld og endurheimti þar með toppsæti deildarinnar. Lokatölur urðu 95-87.

„Strákarnir komu heldur betur saman í kvöld, ég held að þetta sé í fyrsta skipti í síðustu fjórum leikjunum sem við vinnum þá. Loksins, það var kominn tími til,“ sagði Ari Gylfason, stigahæsti leikmaður FSu, í samtali við sunnlenska.is, fisléttur í leikslok.

„Við erum búnir að vinna sjö leiki í röð og erum á góðu róli. Við erum að vinna jöfnu leikina sem við vorum að tapa í fyrra þannig að við förum heldur betur vel stemmdir inn í seinni hluta tímabilsins,“ sagði Ari, sem raðaði niður þriggja stiga körfunum þegar á reyndi í kvöld. „Ég er allur að koma til og er að toppa réttum tíma. Við tökum fyrsta sætið inn í jólafríið en við látum það ekki duga því að við ætlum bara upp.“

FSu komst í 15-5 í upphafi leiks og leiddi 26-17 að loknum 1. leikhluta. Hamar minnkaði muninn í fjögur stig, 32-29, í upphafi 2. leikhluta en þá spýttu heimamenn í lófana og juku muninn í 11 stig, 47-36. Hamar svaraði með 3-8 áhlaupi og staðan var 50-44 í hálfleik.

Hvergerðingar jöfnuðu strax í upphafi síðari hálfleiks, 54-54, og eftir það var spennan í húsinu rafmögnuð. Liðin tókust fast á, en drengilega og augljóst var á tilfinningaríkri frammistöðu þjálfaranna á hliðarlínunni að mikið var í húfi.

Hamar leiddi 66-68 þegar síðasti fjórðungurinn hófst og þar voru heimamenn sterkari. Hamarsvörnin réð ekkert við frændurna Ara Gylfason og Hlyn Hreinsson en þeir röðuðu niður þriggja stiga körfunum undir lokin. Tveir þristar í röð frá Ara komu FSu í 86-81 þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum en á lokakaflanum gekk Hamri ekkert gegn hreyfanlegri vörn gestanna.

Munurinn var þrjú stig þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, 90-87, en Hamar náði ekki að skora fleiri stig í leiknum á meðan Ari og Hlynur hentu í fimm stig til viðbótar.

Ari var stigahæstur í liði FSu með 25 stig, Hlynur skoraði 20 og Erlendur Stefánsson 18. Collin Pryor skoraði 12 stig og tók 14 fráköst, Maciej Klimaszewski skoraði 8 stig, Svavar Stefánsson 4, Birkir Víðisson og Geir Helgason 3 og Þórarinn Friðriksson skoraði 2 stig.

Hjá Hamri var Örn Sigurðarson stigahæstur með 27 stig, Julian Nelson skoraði 19 og sendi 10 stoðsendingar, Snorri Þorvaldsson skoraði 15 stig og Þorsteinn Gunnlaugsson 13, auk þess að taka 10 fráköst. Halldór Gunnar Jónsson skoraði 5 stig og þeir Kristinn Ólafsson og Sigurður Orri Hafþórsson skoruðu 4 stig.

Halldór Gunnar, fyrirliði Hamars, var skiljanlega svekktur í leikslok. „Við vinnum sem lið og töpum sem lið. Kredit á FSu liðið, þeir vildu þetta meira og börðust meira, það var meiri stemmning hjá þeim. Villurnar voru að falla með þeim en ekki okkur og það munar mikið um það í svona jöfnum leik þó að dómgæslan hafi ekki ráðið úrslitum,“ sagði Halldór í samtali við sunnlenska.is eftir leik, en eftir góðan 3. leikhluta gekk ekkert upp hjá Hamri í síðasta fjórðungnum.

„Það féll lítið með okkur í lokin og við erum að fá á okkur 95 stig hérna í kvöld sem er alltof mikið. Við þurfum að pikka vörnina upp ef við ætlum að lenda í 1. sæti í þessari deild, eins og við stefnum á. Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur og bæði lið vissu það. Þetta var ekki bara slagurinn um Suðurlandið heldur var þetta fjögurra stiga leikur í toppbaráttunni og ég er svo ógeðslega svekktur því að mér fannst mitt lið ekki vilja þetta nógu mikið í kvöld,“ sagði fyrirliði Hamars að lokum.

FSu hefur nú unnið sjö leiki í röð í deildinni, allt frá því liðið tapaði fyrir Hamri í Hveragerði í fyrri umferðinni. Að tíu umferðum loknum er FSu í 1. sæti deildarinnar með 16 stig, Höttur í 2. sæti með 16 stig og Hamar í 3. sæti með 14 stig.

Fyrri greinBragðdauft hjá Þórsurum
Næsta greinAðalfundur framundan