„Það koma stundum tapleikir þó að maður vilji það ekki“

Eftir sex sigurleiki í deildinni í röð voru það leikmenn Aftureldingar sem náðu að stöðva Selfoss í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Liðin mættust í spennuleik í Vallaskóla sem lauk með 27-28 sigri gestanna.

„Við erum búnir að vinna marga leiki í röð í deildinni og það verður ekki af okkur tekið. Strákarnir unnu fyrir því, en það koma stundum tapleikir þó að maður vilji það ekki. Þá er aðalatriðið að læra af því og sjá hvað maður gerði rangt. Við erum að fara í bikarleik gegn Þrótti á fimmtudaginn og þá þarf ég að sjá mína menn gera betur. Nýta færin betur og gera betur varnarlega,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Sel­fyss­ing­ar höfðu góð tök á leikn­um lengst af fyrri hálfleik, náðu mest fimm marka forskoti, 14-9, og leiddu 16-13 í leik­hléi. Aft­ur­eld­ing átti góðan kafla um miðjan seinni hálfleik­inn og náði með 5-1 áhlaupi að kom­ast yfir í fyrsta skipti í leikn­um.

Þetta var vendipunktur í leiknum því Selfyssingar náðu sér ekki á strik eftir þetta. Lokakaflinn var samt mjög dramatískur því Selfoss minnkaði muninn í eitt mark þegar rúm hálf mínúta var eftir og heimamenn náðu svo að vinna boltann aftur en markvörður Mosfellinga kom sínum mönnum til bjargar.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 10/4 mörk, Árni Steinn Steinþórsson og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu báðir 4, Elvar Örn Jónsson og Hergeir Grímsson 3, Haukur Þrastarson 2 og Einar Sverrisson 1.

Selfoss er í 4. sæti deildarinnar með 22 stig en Afturelding í 6. sæti með 17 stig.

Fyrri greinHellisheiði og Þrengslum lokað – Búið að opna
Næsta greinSöngkeppni haldin í annað sinn