„Það eru þín orð… en ég styð það“

„Þetta var mikil þolinmæðisvinna. Þær lögðu bara rútunni fyrir framan markið og við þurftum að taka fáar snertingar og láta boltann ganga til að reyna að finna glufurnar,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður Selfoss, eftir 2-0 sigur Íslands á Hvíta-Rússlandi í undankeppni EM í kvöld.

„Við sköpuðum mikið af hálffærum en fengum nokkur góð færi og það var fínt að setja tvö mörk. Við hefðum mátt skora tvö, þrjú í viðbót, hefðum getað valið manninn í betra færinu en völlurinn og boltinn var blautur þannig að aðstæðurnar voru erfiðar,“ sagði Dagný sem átti fínan leik og var sátt við sína frammistöðu.

„Já, nokkuð sátt, það var gaman að skora mark. Ég hafði ekki mikið að gera í varnarhlutverkinu, þurfti að brjóta upp eina og eina sókn en ég var að reyna að finna glufurnar og reyna að taka hlaup fyrir aðra til þess að opna. Í fyrri hálfleik var ég ekki mikið að fá boltann en þegar þær fóru að þreytast í seinni hálfleik þá opnaðist þetta meira. Í fyrra spilaði ég alltaf tíuna, næst fremst. Núna er ég að spila áttuna í svipuðu hlutverki og með Selfossliðinu þannig að ég hef skyldur bæði í sókn og vörn. Þegar andstæðingurinn spilar svona þéttan varnarleik þá er erfiðara að fylla inn í boxið því að það eru svo margir þar. En ég sá tækifæri til þess að skjótast inní teig og það virkaði,“ sagði Dagný sem skoraði með glæsilegum skalla á 73. mínútu og kom Íslandi í 2-0. Það var Hólmfríður Magnúsdóttir sem skoraði fyrra mark Íslands á 30. mínútu.

Er mér þá ekki óhætt að segja að Rangæingarnir hafi klárað þennan leik? Þú með eitt og Fríða með eitt? „Það eru þín orð… en ég styð það,“ sagði Dagný hlæjandi.

Keppnistímabilinu á Íslandi er lokið en Dagný hyggst halda sér í formi fram að næstu landsleikjatörn í október með því að æfa í Svíþjóð.

„Í næstu viku fer ég út til Kristianstad og æfi með þeim til þess að halda mér í standi fyrir landsleikina í október. Það verður fínt að æfa með liði sem er að æfa á fullu, og kannski komast í aðeins heitara umhverfi,“ segir Dagný en eftir það er framhaldið óráðið hjá henni. „Ég er búin að vera að fókusa á landsliðsverkefnin og að klára tímabilið með Selfyssingum en vonandi skýrast næstu skref svo hjá mér fyrir lok október.“

Fyrri greinTólf spora starf í Selfosskirkju
Næsta grein„Í dag var þetta frábært“