„Þær spiluðu á einhverjum eiturgufum“

Kvennalið Selfoss tapaði sínum fyrsta leik í Olís-deildinni í handbolta í kvöld þegar liðið heimsótti Fram í Safamýrina. Lokatölur urðu 32-28.

„Þetta var hörkuleikur, örugglega skemmtilegur fyrir áhorfendur. Sóknarleikurinn var góður hjá báðum liðum og mikill hraði í leiknum en munurinn liggur í því að við náum ekki upp góðum varnarleik. Það eru sex eða sjö fyrrverandi eða núverandi A-landsliðsmenn í Fram-liðinu og gríðarleg reynsla og þær náðu að sundurspila vörnina hjá okkur í dag,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Þetta var jafn leikur en við fengum tvær brottvísanir í leiknum, í síðari hálfleik og þá myndast bil sem við náum aldrei að brúa í lokin,“ sagði Sebastian og bætti við að liðið hafi keyrt sig út í leiknum eftir erfiða leikjatörn síðustu daga.

„Við erum búin að spila þrjá leiki á fimm dögum og ég er mjög stoltur af því hvernig liðið kláraði sig í þessum leikjum. Vissulega voru kannski þreytumerki á okkur undir lokin í kvöld og auðvitað hafði það áhrif undir lok leiksins þar sem Fram er með mikla breidd í hópnum. Það voru mjög margir leikmenn Selfoss sem gáfu allt í þetta og kláruðu sig alveg. Þær spiluðu á einhverjum eiturgufum sem ég veit ekki hvaðan komu.“

Selfoss komst í 2-6 í upphafi leiks og leiddi fyrstu tuttugu mínúturnar. Fram náði að jafna fyrir hálfleik og staðan var 16-16 í leikhléi.

Í síðari hálfleik hafði Fram undirtökin en Selfyssingar fylgdu þeim eins og skugginn. Einu brottvísanir Selfyssinga í leiknum komu með tíu mínútna millibili í síðari hálfleik og manni fleiri voru Framarar klókir og náðu forskoti sem Selfoss gat ekki brúað.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 12 mörk, Adina Ghidoarca skoraði 7, Carmen Palamariu 6, Perla Ruth Albertsdóttir 2 og Elena Elísabet Birgisdóttir 1.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 9 skot í marki Selfoss (30%) og Áslaug Ýr Bragadóttir 3 (20%).

Fyrri greinFjölbreyttara námsefni fyrir nemendur
Næsta grein„Að spila úrslitaleik er bara drulluhollt fyrir þessa stráka“