Þægilegur sigur í Njarðvík

Þórsarar halda áfram að gera gott mót í Iceland Express-deild karla í körfubolta. Þór lagði Njarðvík í kvöld á útivelli, 75-90.

Njarðvíkingar byrjuðu betur í leiknum og komust í 18-10 en Þór klóraði í bakkann undir lok fyrsta leikhluta og minnkaði muninn í 23-19. Nær komust Þórsarar ekki í bili því Njarðvík jók forskotið aftur í fjórtán stig, 33-19, og leiddu allan fyrri hálfleikinn. Darrin Govens og Guðmundur Jónsson settu hins vegar niður fjóra þrista í röð undir lok fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn í 39-37 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Þórsarar komust yfir með því að skora fyrstu fjögur stigin í síðari hálfleik og héldu forystunni eftir það. Þór náði 11 stiga forskoti, 45-56, í 3. leikhluta sem Þorsteinn Már Ragnarsson lokaði með þriggja stiga körfu og staðan var 50-62 þegar 3. leikhluti var flautaður af.

Grétar Erlendsson setti niður þrist í upphafi síðasta fjórðungsins og eftir það héldu Þórsarar Njarðvíkingum nokkuð þægilega frá sér. Munurinn varð mestur 23 stig og Njarðvíkingar aldrei nálægt því að koma sér aftur inn í leikinn.

Darrin Govens var maður leiksins hjá Þór með 29 stig, Michael Ringgold skoraði 14 og tók 11 fráköst, Guðmundur Jónsson skoraði sömuleiðis 14 og tók 10 fráköst og Darri Hilmarsson skoraði 13 stig.

Þór er í 1.-4. sæti deildarinnar að loknum fjórum leikjum, með sex stig og leikur næst í deildinni gegn Stjörnunni á heimavelli þann 4. nóvember. Næsti leikur Þórs er hins vegar í Lengjubikarnum gegn KR á útivelli á sunnudag.