Þægilegur sigur eftir slaka byrjun

Selfoss vann þægilegan sigur á Fjölni í 1. deild karla í handbolta í kvöld þegar keppni hófst aftur eftir sex vikna hlé í deildinni. Lokatölur voru 18-27.

Selfyssingar vildu greinilega lengja fríið aðeins og byrjuðu því ekki að spila handbolta af neinu viti fyrr en rúmar fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum. Staðan var þá 11-9, Fjölni í vil. Þá fannst Selfyssingum nóg komið og skelltu í lás í vörninni en liðið fékk aðeins á sig átta mörk á síðustu 45 mínútum leiksins. Staðan var 13-15 í hálfleik og Selfoss að spila langt undir getu lengst af.

Allt annað var að sjá til liðsins í seinni hálfleik, vörnin var fín og Sverrir Andrésson skellti í lás í markinu og varði 16/1 skot. Selfoss komst í 13-17 og 18-22 og á síðustu tíu mínútunum röðuðu Selfyssingar inn fimm mörkum til viðbótar án þess að Fjölnir ætti svar.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga í kvöld með 7 mörk. Hörður Bjarnarson og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu 4, Matthías Örn Halldórsson og Gústaf Lilliendahl 3 en þetta var fyrsti leikur Gústafs fyrir Selfoss síðan 2009. Örn Þrastarson skoraði 2 mörk eins og Einar Pétur Pétursson, Andri Már Sveinsson og Hörður Másson skoruðu síðan sitt markið hvor.

Sverrir Andrésson varði 16/1 skot í markinu og var með 65% markvörslu en Helgi Hlynsson varði 2 skot og var með 18% markvörslu.

Næsti leikur liðsins er gegn Þrótti á heimavelli föstudaginn 8. febrúar klukkan 19:30.

Fyrri greinFSu tapaði fyrir botnliðinu
Næsta greinHamar ekki í vandræðum með Reyni