Þægilegt gegn Þrótti

Selfyssingar unnu þægilegan sigur á Þrótti í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 21-34. Atli Kristinsson var markahæstur Selfyssinga með sjö mörk.

Selfyssingar áttu ekki í neinum vandræðum með Þróttara og komust fljótlega í þægilega stöðu. Allir leikmenn á skýrslu komu við sögu og leikgleðin var ríkjandi. Staðan var 9-18 í hálfleik og forskotið jókst enn frekar í síðari hálfleik.

Sem fyrr segir skoraði Atli 7 mörk, Andri Már Sveinsson, Einar Sverrisson og Atli Hjörvar Einarsson komu næstir með 4 mörk, Jóhannes Eiríksson, Hergeir Grímsson og Gunnar I. Jónsson skoruðu 3 mörk, Jóhann Erlingsson og Haukur Hjaltason 2 og þeir Egidijus Mikalonis og Magnús M. Magnússon skoruðu sitt markið hvor.

Selfoss er áfram í 3. sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Stjörnunni, þegar tvær umferðir eru eftir.