Ævintýri Gnúpverja á enda

Gnúpverjar hafa dregið lið sitt úr keppni í 1. deild karla í körfubolta fyrir næstu leiktíð eftir frábær síðustu tímabil.

karfan.is greinir frá þessu

Þjálfari liðsins og stofnandi Máté Dalmay tók við liði Hamars í sumar en ástæða þess að liðið ætlar ekki að taka þátt á næsta tímabili er gríðarlegur kostnaður.

Gnúpverjar fóru upp um tvær deildir á tveimur árum áður en liðið lék í 1. deild á síðustu leiktí. Þar endaði liðið í sjötta sæti með tíu sigra en liðið kom mikið á óvart.

Yfirlýsingu Gnúpverja má finna í heild sinni hér að neðan:

Nú er ljóst að lið Gnúpverja mun ekki taka slaginn í 1.deildinni á komandi leiktímabili. Eins og öll ævintýri þá tekur þetta einnig enda. Við, leikmenn og stjórn Gnúpverja viljum þakka kærlega fyrir allann þann stuðning, áhuga og velvild í okkar garð sem körfuboltafjölskyldan, vinir, fjölskyldumeðlimir, fyrirtæki og almenningur hafa sýnt okkur.

1. deildin á komandi leiktímabili er eins og allir sem fylgjast með vita orðin það kostnaðarsöm að ekki gengur að taka þátt á þeim forsendum sem lið Gnúpverja var byggt upp á. Liðið hefur lítið bakland og frá fyrsta degi hafa leikmenn og þjálfarar greitt nánast allann kostnað úr eigin vasa. Nú er svo komið að við treystum okkur ekki í að taka þátt, enda verður ferðakostnaður í hæstu hæðum í 1. deildinni á næsta tímabili.

Þetta hafa verið frábær ár, sigur í 3. deildinni, 2. sætið eftir úrslitakeppni í 2. deildinni, og svo loks tíu sigrar og 6. sætið í 1. deildinni á nýliðnu tímabili.

Takk fyrir okkur!

Fyrir hönd Gnúpverja,
Hraunar Karl Guðmundsson

Fyrri greinHildur Helga setti HSK met
Næsta greinHVER/GERÐI – sýningarstjóraspjall á ensku