Ægismenn komnir í úrslitakeppnina

Ægismenn hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppni 3. deildar karla í knattspyrnu og öruggt sæti í hinni nýju 3. deild – í það minnsta.

Einn leikur fór fram í A-riðlinum í kvöld þar sem Léttir vann dramatískan 2-4 sigur á Berserkjum. Þau úrslit urðu til þess að Léttir tók 3. sætið og fer í umspil um laust sæti í nýju 3. deildinni og Ægir er með öruggt sæti í 8-liða úrslitunum.

Þannig er sæti Ægismanna tryggt í nýju 3. deildinni en öll liðin í 8-liða úrslitunum leika þar á næsta ári utan tveggja efstu liðanna sem fara upp í 2. deild.

Ægir tekur á móti Árborg í lokaumferðinni á laugardaginn. Úrslit leiksins munu líklega ekki hafa áhrif á sætaskipan liðanna því topplið Sindra á fyrir höndum leik gegn botnliði Ísbjarnarins og á sigurinn vísan þar.

Ægir mun að öllum líkindum mæta Hugin frá Seyðisfirði í 8-liða úrslitum 3. deildarinnar.