Ægismenn komnir í fallsætið

Það blæs ekki byrlega hjá Ægismönnum í 3. deild karla í knattspyrnu en í gær tapaði liðið 0-1 á heimavelli þegar topplið Dalvíkur/Reynis kom í heimsókn.

Á sama tíma vann botnlið Sindra öruggan sigur á Augnabliki og fór upp fyrir Ægi á stigatöflunni. Ægir situr núna í neðsta sæti 3. deildarinnar, en aðeins eitt lið mun falla úr deildinni í ár vegna fjölgunar liða á næstu leiktíð.

Dalvík/Reynir komst yfir á 12. mínútu leiksins í gær og hélt því forskoti til leiksloka. Það bætti ekki úr skák fyrir Ægi að Arilíus Marteinsson fékk tvö gul spjöld með skömmu millibili í síðari hálfleik og þeir gulu léku því manni færri síðasta hálftímann.

Fyrri greinMannvit átti lægra tilboðið
Næsta greinÍbúafjöldi Þorlákshafnar margfaldast um verslunarmannahelgina