Ægir vann baráttuna um Suðurland

Ægir og Hamar buðu upp á hörkuleik í 2. deild karla í knattspyrnu í dag þegar liðin mættust á Þorlákshafnarvelli. Darko Matejic skoraði eina mark leiksins í 1-0 sigri Ægis.

Fyrsta mínútan í leiknum var fjörug en Ragnar Valberg Sigurjónsson og Marteinn Gauti Andrason fengu báðir ágæt hálffæri á sitthvorum enda vallarins án þess að ná að stýra knettinum á rammann.

Þar fyrir utan voru fyrstu 25 mínútur leiksins rólegar, Hamarsmenn voru ívið meira með boltann en liðin fóru bæði varlega og ætluðu augljóslega að forðast mistök á blautum vellinum, enda mikið undir í þessum Suðurlandsslag.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn þyngdust hins vegar sóknir Ægis og þeir urðu beittari fram á við. Á 28. mínútu fékk Ægir hornspyrnu þar sem Haukur Már Ólafsson hitti ekki boltann í galopnu skallafæri á markteignum og í kjölfarið sigldi boltinn framhjá hverjum leikmanninum á fætur öðrum í markteignum.

Tveimur mínútum síðar slapp Arilíus Marteinsson einn í gegnum vörn Hamars og valdi að senda boltann fyrir á Darko Matejic en boltinn fór afturfyrir Matejic og sóknin rann út í sandinn.

Skömmu síðar björguðu Hvergerðingar á línu þegar Ivan Razumovic átti skot að marki Hamars eftir hornspyrnu. Staðan var 0-0 í hálfleik.

Ægismenn voru sterkari í síðari hálfleik en sóknarleikur þeirra var mun markvissari en nágrannananna úr Hveragerði.

Strax í upphafi síðari hálfleiks sköpuðu Ægismenn mikinn usla upp við mark Hamars eftir að Björn M. Aðalsteinsson hafði farið í skógarhlaup út úr vítateignum. Sókninni lauk með því að Ægismenn fengu aukaspyrnu fyrir utan vítateiginn. Arilíus Marteinsson afgreiddi hana snyrtilega að marki en Björn var vel á verði og varði glæsilega út við stöng.

Ekki leið á löngu að Ægismenn brutu ísinn. Þeir fengu hornspyrnu á 62. mínútu sem Hvergerðingum tókst ekki að bægja frá markinu. Boltinn barst aftur inn á teiginn þar sem hinn stórhættulegi Matthías Björnsson skallaði boltann út á Tómas Sjöberg Kjartansson sem var fljótur að hugsa og renndi boltanum inn á Majetic sem skoraði af stuttu færi.

Fjölmargir áhorfendur bundu vonir við að markið myndi lífga upp á leikinn og opna hann eitthvað en sú varð ekki raunin. Ægismenn stjórnuðu leiknum og áttu hættulegri sóknir á meðan allan brodd vantaði í Hamarsliðið og Hugi Jóhannesson, markvörður Ægis, átti tiltölulega náðugan seinni hálfleik.

Ægi tókst þó ekki að skapa sér opin færi en á 79. mínútu átti Þorkell Þráinsson hættulaust skot að marki Hamars en Björn missti boltann undir sig í bleytunni og var heppinn að knötturinn fór ekki yfir línuna.

Undir lokin fjaraði leikurinn hægt og rólega út en Ægismenn voru duglegir að halda knettinum upp við hornfána og éta af klukkunni í föstum leikatriðum. Hvergerðingar luku leiknum síðan á heldur snautlegan hátt en í sömu mund og dómarinn flautaði til leiksloka sparkaði Kristján Valur Sigurjónsson Darko Majetic niður í pirringi og uppskar beint rautt spjald frá dómara leiksins.

Eftir leikinn er Ægir í sjötta sæti deildarinnar með 6 stig en Hamar í því tíunda með 3 stig.

Fyrri greinFyrsti sigur KFR í deildinni
Næsta greinSýningalok og „krass-kúrs“ í strætislist