Ægir upp í 2. deild

Knattspyrnufélagið Ægir í Þorlákshöfn mun leika í 2. deild karla að ári en Ægir sló Magna út í tveggja leika einvígi í undanúrslitum 3. deildarinnar. Lokatölur í Þorlákshöfn í dag voru 3-2 og Ægir sigraði samtals 6-3.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru bágbornar í Höfninni í dag, vindur allt að 20 metrum á sekúndu og grenjandi rigning á köflum.

Magnamenn sóttu með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og voru meira með boltann en Ægismenn áttu líka efnilegar sóknir og ágæt færi gegn vindinum. Þrátt fyrir bakvindinn skutu Magnamenn lítið að marki heldur reyndu að spila sig í gegn og uppúr einni slíkri sókn skoruðu þeir á 33. mínútu.

Staðan var 0-1 í hálfleik en í síðari hálfleik snerist dæmið við, Ægismenn voru meira með boltann og Magna gekk lítið að skapa sér á móti vindi.

Á 55. mínútu jafnaði Milan Djurovic leikinn fyrir Ægi þegar hann fékk góða sendingu yfir á hægri kantinn nálægt vítateig Magna. Djurovic var á auðum sjó, óð að markinu og skoraði með góðu skoti. Hafi Ægismenn haldið að sigurinn væri í höfn við þetta skjátlaðist þeim illilega því Magnamenn tóku miðju, stungu sér innfyrir og skoruðu af stuttu færi, 1-2. Nú vantaði Magna aðeins eitt mark til að knýja fram framlengingu en þeir náðu aldrei að ógna marki Ægis að neinu ráði síðasta hálftímann.

Vindurinn stjórnaði leiknum og var Ægismönnum hliðhollur en Þorlákshafnarliðið hélt boltanum á jörðinni og sótti nánast látlaust síðasta hálftímann.

Matthías Björnsson jafnaði fyrir Ægi á 66. mínútu með rándýru marki. Sókn Ægis virtist vera að renna út í sandinn þegar Ingi Rafn Ingibergsson vann boltann upp við endalínu og fékk pláss til að senda fyrir. Þar misreiknaði markvörður Magna boltann og missti hann út í markteiginn þar sem Matthías lá afvelta og mokaði knettinum yfir línuna með liprum fótahreyfingum.

Varamaðurinn Magnús Helgi Sigurðsson skoraði svo sigurmark leiksins á 90. mínútu þegar hann náði frákastinu eftir að markvörður Magna varði frá Inga Rafni.

Ægismenn fögnuðu vel í leikslok en flýttu sér síðan í heita sturtu. Þrettán ár eru síðan Ægismenn spiluðu síðast í 2. deildinni og hefur biðin því verið löng hjá stuðningsmönnum félagsins.

Ægir mætir Sindra í úrslitaleik 3. deildarinnar á laugardaginn en Sindramenn tryggðu sér sömuleiðis sæti í 2. deild í dag með því að gera 1-1 jafntefli við Leikni Fáskrúðsfirði en Sindri vann samtals 6-2 í viðureignum liðanna.