Ægir tapaði í markaleik

Ægismenn töpuðu fyrir KFS í B-deild Lengjubikarsins á Selfossvelli í dag, 3-4.

Vestmannaeyingar byrjuðu betur og komust í 2-0 í fyrri hálfleik. Ægismenn hófu seinni hálfleikinn hins vegar af krafti og komust í 3-2 á fyrstu fimmtán mínútunum. Milan Djurovic skoraði fyrst og Danislav Jevtic bætti svo við tveimur mörkum.

Á 60. mínútu fékk Gísli Ármannsson sitt annað gula spjald og manni færri tókst Ægismönnum ekki að verja forskotið. Eyjamenn sóttu meira þegar leið á síðari hálfleik og uppskáru tvö mörk áður en yfir lauk.

Nokkra lykilmenn vantaði í lið Ægis sem sitja á botni riðilsins þegar einni umferð er ólokið.

Fyrri greinEkkert öskufall í byggð
Næsta greinÖskufallsspá