Ægir tapaði fyrir Álftanesi

Ægir tapaði fyrir 3. deildarliði Álftaness þegar liðin mættust í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag.

Leikurinn var spilaður í Reykjaneshöllinni og þar komust Álftnesingar yfir strax á 3. mínútu. Daníel Rögnvaldsson jafnaði metin sex mínútum síðar og þar við sat allt fram á 40. mínútu að Álftanes komst yfir og leiddi í hálfleik, 1-2.

Álftanes jók forskotið á 67. mínútu með marki úr vítaspyrnu en fimm mínútum síðar minnkaði Andri Sigurðsson muninn í 2-3. Álftnesingar voru hins vegar sprækari á lokakaflanum og bættu við tveimur mörkum þannig að lokatölur urðu 2-5.

Þetta var fyrsti leikur Ægis í riðlinum en liðið mætir næst KFR þann 15. mars.