Ægir og KFR áfram í fallhættu

Ægir og KFR gerðu bæði 1-1 jafntefli í leikjum sínum í 2. og 3. deild karla í knattspyrnu í dag og eiga ennþá á hættu að falla niður um deild.

Ægir fékk Tindastól í heimsókn í sex stiga leik í 2. deildinni. Gestirnir komust yfir á 31. mínútu en William Daniels jafnaði metin á lokamínútu fyrri hálfleiks. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst hvorugu liðinu að bæta við mörkum.

Njarðvík vann sinn leik í dag og fór uppfyrir Ægi á töflunni þannig að Ægismenn sitja nú í 10. sæti deildarinnar með 18 stig en Tindastóll er 11. sæti með jafn mörg stig. Markahlutfall Tindastóls er mun lakara og þeir því í fallsætinu.

Í 3. deildinni heimsótti KFR botnlið Álftaness. Álftanes varð að sigra til að forðast fall en niðurstaðan varð 1-1 jafntefli. Álftanes er því fallið, en KFR er áfram í fallhættu með 15 stig í 8. sæti, tveimur stigum á undan Berserkjum sem sitja í 9. sætinu.

Helgi Ármannsson kom KFR yfir í leiknum í dag á 81. mínútu en markvörður Álftaness jafnaði metin eftir hornspyrnu í uppbótartíma.

KFR á eftir að mæta Kára og Víði en Berserkir eiga eftir leiki við Einherja og Völsung.

Fyrri greinSkinney-Þinganes kaupir Auðbjörgu
Næsta grein„Erum einu skrefi nær markmiðinu“