Ægir og Hamar töpuðu

Ægir og Hamar töpuðu sínum leikjum í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Ægir fékk Gróttu í heimsókn en Hamar mætti toppliði ÍR á útivelli.

Ægir og Grótta eru að berjast á svipuðum stað í deildinni en fyrri hálfleikur var tíðindalítill og einkenndist af barningi úti á vellinum.

Fjörið byrjaði í síðari hálfleik en strax í fyrstu sókn björguðu Gróttumenn á línu eftir sókn Ægis. Haukur Már Ólafsson átti þá skot að marki eftir klafs í teignum en Gróttumaðurinn Guðmundur Marteinn Hannesson renndi sér fyrir boltann og bjargaði sínum mönnum. Þetta kveikti í Gróttuliðinu sem tók öll völd á vellinum í kjölfarið.

Á 50. mínútu áttu gestirnir snarpa sókn upp vinstra megin sem endaði með fyrirgjöf. Hugi Jóhannesson, markvörður Ægis, kýldi boltann frá undir pressu frá tveimur sóknarmönnum Gróttu, og boltinn fór beint fyrir fætur eins gestanna í teignum sem kláraði færið auðveldlega. Ægismenn voru slegnir út af laginu en á 54. mínútu léku gestirnir auðveldlega í gegnum steinsofandi varnarmenn Ægis og breyttu stöðunni í 0-2. Gestirnir voru ekki hættir því þremur mínútum síðar komust þeir aftur innfyrir Ægisvörnina og staðan orðin 0-3 á sjö mínútna kafla.

Eftir þetta datt leikurinn niður aftur og hvorugt liðið fékk færi. Ægismenn hresstust þó nokkuð með innkomu varamannanna Arilíusar Marteinssonar og Matthíasar Björnssonar og síðustu tíu mínútur leiksins lágu þeir gulu í sókn en uppskáru aðeins eitt gott færi. Þorkell Þráinsson fékk þá boltann á auðum sjó á fjærstöng eftir frábæra fyrirgjöf Matthíasar en markvörður gestanna gerði vel í að verja.

Leikurinn fjaraði út eftir þetta og ekkert markvert gerðist utan hvað dómari leiksins vísaði einum gæslumannanna upp í stúku eftir að sá hafði hrópað að dómaranum og heimtað rautt spjald á Gróttumann sem braut af sér. Örvar Sær Gíslason, dómari, hafði skiljanlega ekkert við ráðleggingar fagmannsins á hliðarlínunni að gera og vísaði honum af velli.

Hamar lá í Breiðholtinu
Hamar heimsótti topplið ÍR í Breiðholtið og þar reyndust heimamenn sterkari. ÍR komst yfir á 18. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. ÍR skoraði tvívegis á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks en Ragnar Valberg Sigurjónsson minnkaði muninn í 3-1 fyrir Hamar á 62. mínútu. Nær komust Hvergerðingar ekki því sex mínútum síðar skoraði Ingþór Björgvinsson sjálfsmark og kom ÍR í 4-1 og heimamenn innsigluðu sigurinn svo með fimmta markinu á 75. mínútu leiksins.

Hamar er í 8. sæti 2. deildarinnar með 9 stig en Ægir er í 10. sæti með 8 stig.

Fyrri greinJóhann Ólafur magnaður í góðum sigri Selfoss
Næsta greinFriðartré gróðursett í Hveragerði