Ægir og Hamar töpuðu í kvöld

Ægir tók á móti toppliði Gróttu í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld og tapaði 0-1. Á sama tíma tapaði Hamar 3-2 gegn Víði í Garði í 3. deildinni.

Fyrri hálfleikurinn hjá Gróttu og Ægi var tíðindalítill. Gróttumenn voru meira með boltann en færin létu á sér standa. Það var ekki fyrr en á 40. mínútu að kliður fór um stúkuna þegar fyrirgjöf Jóhanns Óla Þórbjörnssonar fór rétt framhjá fjærstönginni á Gróttumarkinu.

Tveimur mínútum síðar skoruðu gestirnir eina mark leiksins og var það í ódýrari kantinum. Föstu leikatriðin hafa verið Ægismönnum fjötur um fót í sumar en að þessu sinni kom sigurmark gestanna úr hornspyrnu sem fór í gegnum allan pakkann og á lausan mann á fjærstöng. Matthew Towns náði ekki að hafa hendur á boltanum sem lak innfyrir marklínuna.

Gestirnir 0-1 yfir í hálfleik og síðari hálfleikurinn var markalaus. Ægismenn voru meira í boltanum en fundu fáar leiðir framhjá þéttri vörn Gróttu.

Ægir er í 7. sæti 2. deildarinnar með 6 stig að loknum fjórum leikjum og mætir næst KF á útivelli, föstudaginn 13. júní.

Hamar heimsótti Víði í Garðinn í 3. deildinni í kvöld. Heimamenn komust yfir á 16. mínútu en á 28. mínútu jafnaði Sölvi Víðisson fyrir Hamar og staðan var 1-1 í hálfleik.

Víðismenn komust aftur yfir um miðjan síðari hálfleikinn og bættu svo þriðja markinu við rétt undir leikslok en Ingþór Björgvinsson lagaði stöðuna fyrir Hamar í uppbótartíma og lokatölur urðu 3-2.

Hamar er enn án sigurs í 3. deildinni, eins og KFR og Einherji en Hvergerðingar hafa besta markahlutfallið af þessum liðum.

Næsti leikur Hamars er strax á mánudaginn, kl. 13 á Grýluvelli, en þá koma Leiknismenn frá Fáskrúðsfirði í heimsókn.

Fyrri grein„Hræðileg aðkoma fyrir börnin“
Næsta greinStokkseyri krækti í stig