Ægir og Hamar sigruðu – Rangæingar lutu í gervigras

Ægir og Hamar sigruðu í sínum leikjum í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Rangæingar töpuðu aftur á móti í leik dagsins.

Ægir og Grótta mættust í hádegisleiknum á Gróttuvelli þar sem nýjasti leikmaður Ægis, Darko Matejic, var búinn að koma sínum mönnum í 0-2 eftir rúmar tuttugu mínútur. Staðan var 0-2 í hálfleik en Grótta minnkaði muninn á 64. mínútu. Það reyndist síðasta mark leiksins og Ægismenn náðu þarna í fyrstu stig sín í Lengjubikarnum í vor.

Hamar sótti Víði heim í Reykjaneshöllina þar sem Hvergerðingar afgreiddu leikinn í fyrri hálfleik. Ragnar Valberg Sigurjónsson kom Hamri í 0-1 á 8. mínútu og í kjölfarið fylgdu mörk frá Eiríki Raphael Elvy og Kristjáni Val Sigurjónssyni. Lokatölur 0-3 og Hamarsmenn komnir með 6 stig í riðlinum.

KFR og KB mættust á Selfossvelli í C-deildinni. KB komst í 0-1 á 25. mínútu en tíu mínútum síðar jafnaði Lárus Viðar Stefánsson metin fyrir KFR og staðan var jöfn í hálfleik. Breiðhyltingar reyndust síðan sterkari í síðari hálfleik en þeir skoruðu þrjú mörk á tuttugu mínútna kafla og breyttu stöðunni í 1-4. Rangæingar minnkuðu muninn í 2-4 á 78. mínútu þegar markvörður KB skoraði sjálfsmark.

Fyrri greinMetþátttaka í göngu við ströndina
Næsta greinHestafjör í dag