Ægir og Árborg töpuðu

Ægir og Árborg töpuðu sínum leikjum í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Ægir mætti KFG en Árborg KFS.

Milan Djurovic kom Ægismönnum yfir í leiknum gegn KFG en í kjölfarið fylgdu þrjú mörk Garðbæinga. Djurovic minnkaði muninn í 3-2 en KFG skoraði tvö mörk til viðbótar og lokatölur voru 5-2.

Eina markið í leik Árborgar og KFS kom í upphafi síðari hálfleiks þegar Eyjamenn skoruðu úr vítaspyrnu. Árborgarar voru klaufar upp við mark KFS og áttu meðal annars tvö sláarskot.