Ægir nálgast öruggt sæti

Ægir vann mikilvæg stig í botnbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í dag þegar Höttur kom í heimsókn á Þorlákshafnarvöll.

Höttur komst yfir á 4. mínútu með marki Brynjars Árnasonar og var það eina markið sem var skorað í fyrri hállfeik. Jonathan Hood jafnaði metin fyrir Ægi á 62. mínútu og fimm mínútum síðar kom hann þeim gulu í forystuna. Fleiri urðu mörkin ekki og Ægir sigraði 2-1.

Ægir er í 11. sæti deildarinnar með 14 stig þegar fimm umferðir eru eftir, þremur stigum á eftir KV sem hefur mun betra markahlutfall. Ægir og KV eiga eftir að mætast í 19. umferð deildarinnar.

Í gærkvöldi steinlágu Stokkseyringar í 4. deildinni þegar þeir heimsóttu Berserki. Staðan var orðin 2-0 fyrir Berserkjum eftir sex mínútna leik og í leikhléi stóðu leikar 4-0. Berserkir bættu við þremur mörkum um miðjan seinni hálfleikinn og tveimur til viðbótar á lokamínútunum, lokatölur 9-0.

Þetta var síðasti leikur Stokkseyringa í sumar en þeir luku keppni í 5. sæti A-riðils með 12 stig.