Ægir náði ekki að koma inn marki

Ægir heimsótti topplið Gróttu í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Það var napurt og næðingur á Nesinu þar sem heimamenn fóru með sigur af hólmi, 1-0.

Ægismenn sóttu nokkuð fyrstu fimmtán mínútur leiksins en fengu engin opin færi. Þegar leið á fyrri hálfleikinn náði Grótta ágætis tökum á leiknum en þrátt fyrir það komust heimamenn lítið áfram gegn þéttri vörn Ægis. Bestu marktilraun fyrri hálfleiks átti Guðmundur Marteinn Hannesson, fyrirliði Gróttu, en hann skallaði í þverslána á marki Ægis eftir hornspyrnu á 37. mínútu.

Annars bar það hæst í fyrri hálfleik að það kviknaði í gasgrilli Gróttumanna á hliðarlínunni en þrátt fyrir það fengu vallargestir hamborgarana sína í hálfleik, á meðan þeir veltu fyrir sér stöðunni í markalausum leiknum.

Síðari hálfleikur var mun fjörugri og fyrsta færið fékk Darko Matejic en hann skaut rétt framhjá Gróttumarkinu eftir skyndisókn á 58. mínútu. Gróttuliðið var hins vegar hættulegra fram á við framan af síðari hálfleik og á 64. mínútu skoraði Jóhannes Hilmarsson snyrtilegt mark þegar hann slapp innfyrir eftir snarpa sókn heimamanna.

Í kjölfar marksins tóku Ægismenn öll völd á vellinum. Á 68. mínútu átti Matejic skalla að marki eftir aukaspyrnu sem Kjartan Ólafsson varði í marki Gróttu og mínútu síðar átti Birgir Magnússon stórhættulegan skalla rétt framhjá eftir aukaspyrnu Sverris Garðarssonar. Besta færi Ægis fékk Ingvi Rafn Óskarsson hins vegar á 80. mínútu þegar hann slapp innfyrir en skaut framhjá í dauðafæri, einn á móti markverði.

Ægismenn pressuðu verulega á Gróttumenn síðustu tíu mínútur leiksins en fengu engin teljandi færi. Á meðan var allt opið í vörninni og Grótta var nálægt því að refsa fyrir það á fjórðu mínútu uppbótartíma. Heimamenn fengu þá skyndisókn og Halldór Hilmisson komst framhjá Matthew Towns í marki Ægis en skot Halldórs rataði beint á kollinn á Ægismanninum Michael Jónssyni sem skallaði boltann yfir á marklínunni. Skömmu síðar flautaði dómarinn til leiksloka og lokatölur urðu 1-0.

Ægismenn eru nú í 9. sæti deildarinnar með 19 stig en Grótta er áfram í toppsætinu, nú með 38 stig.

Fyrri greinGHR féll um deild
Næsta greinÆtla að ganga 200 kílómetra áheitagöngu