Ægir með forskot eftir fyrri leikinn

Ægir vann 1-0 sigur á Hugin frá Seyðisfirði þegar liðin mættust í Þorlákshöfn í úrslitakeppni 3. deildar karla í knattspyrnu í dag.

Þetta var hörkuleikur og ljóst að Huginsmenn verða engin lömb að leika sér við í seinni leiknum á Seyðisfirði á þriðjudag.

Milan Djurovic skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 38. mínútu eftir að markvörður Hugins braut á Predrag Dordevic og uppskar rautt spjald fyrir vikið.

Manni fleiri höfðu Ægismenn góð tök á leiknum í síðari hálfleik en tókst ekki að skora. Eyþór Guðnason komst næst því þegar hann brenndi af dauðafæri undir lok leiks.

Seinni leikur liðanna fer fram á Seyðisfirði kl. 17:30 á þriðjudag. Ægir fer með eins marks forskot inn í leikinn en liðið sem vinnur samanlagt í leikjunum tveimur fer áfram í undanúrslit deildarinnar en tapliðið tekur sæti í nýju 3. deildinni á næstu leiktíð.