Ægir lék Reynismenn grátt

Ægir vann góðan sigur á Reyni í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. KFR tapaði sínum leik, og það gerði Árborg einnig í C-deildinni.

Gunnar Bent Helgason kom Ægi í 0-2 í Reykjaneshöllinni með tveimur mörkum á fyrstu fjórum mínútum leiksins. Draumabyrjun fyrir Ægi. Reynir minnkaði muninn í 1-2 um miðjan fyrri hálfleikinn en Gunnar Orri Guðmundsson kom Ægi í 1-3 á 30. mínútu. Reynismenn náðu að bæta við marki fyrir leikhlé og staðan var 2-3 í hálfleik. Seinni hálfleikur var ekki eins fjörugur en Reynir jafnaði snemma, 3-3, en Ægismenn tryggðu sér sigurinn með tveimur mörkum á síðustu fimm mínútunum. Fyrst skoraði Gunnar Orri og síðan innsiglaði Þorbergur Bjarnason 3-5 sigur Ægis.

Á Selfossvelli mættust KFR og Sindri. Sindramenn voru sterkari í fyrri hálfleik og skoruðu þrjú mörk á tíu mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleikinn. Staðan var 0-3 í hálfleik og á 62. mínútu bættu Sindramenn við fjórða markinu. Reynir Björgvinsson skoraði tvívegis á síðustu sjö mínútum leiksins og minnkaði muninn í 2-4 en þá voru Sindramenn orðnir níu talsins eftir að tveir leikmenn þeirra höfðu séð rautt í seinni hálfleiknum.

Ægir hafnaði í 3. sæti riðilsins með 9 stig en KFR er í botnsætinu án stiga.

Í C-deildinni mætti Árborg Stál-úlfi í Kópavogi þar sem Stál-úlfur fór með 4-0 sigur af hólmi. Árborg varð í 4. sæti í sínum riðli með 6 stig.