Ægir jafnaði í blálokin

Ægir náði jafntefli þegar liðið mætti Augnabliki í botnbaráttu 3. deildar karla í knattspyrnu í Fagralundi í Kópavogi í kvöld.

Ægismenn byrjuðu betur og Diego Minguez kom þeim yfir strax á fyrstu mínútu leiksins. Staðan var 0-1 allt fram á 60. mínútu að heimamenn fengu vítaspyrnu sem þeir jöfnuðu úr.

Tveimur mínútum fyrir leikslok náði Augnablik að komast yfir, 2-1, en á lokamínútunni jöfnuðu Ægismenn þegar Augnablikar skoruðu sjálfsmark.

Lokatölur 2-2 en það dugði Ægi ekki til að hífa sig upp úr botnsætinu. Ægir hefur 8 stig í 10. sætinu en þar fyrir ofan er Sindri með 10 stig og leik til góða.

Fyrri greinSíðustu sumartónleikarnir á Hendur í höfn
Næsta greinEldur í sumarhúsi í Rangárþingi