Ægir í toppmálum eftir fyrri leikinn

Ægismenn eru komnir með annan fótinn upp í 2. deild karla í knattspyrnu eftir 1-3 sigur á Magna á Grenivík í úrslitakeppni 3. deildar karla í dag.

Magnamenn hafa verið á miklu skriði í B-riðlinum í sumar og ekki tapað leik fyrr en kom að viðureigninni við Ægi í dag.

Heimamenn komust yfir strax á 6. mínútu en Milan Djurovic jafnaði fyrir Ægi á 13. mínútu. Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik þrátt fyrir ágæt færi beggja liða.

Í síðari hálfleik reyndust Ægismenn sterkari en Matthías Björnsson kom þeim yfir á 64. mínútu og í uppbótartíma bætti Magnús Helgi Sigurðsson þriðja markinu við.

Ægismenn eru því í góðri stöðu fyrir síðari leik liðanna sem fram fer í Þorlákshöfn á miðvikudaginn kl. 17:15.