Ægir fékk silfrið

Ægismenn hömpuðu silfurverðlaununum í 3. deild karla í knattspyrnu í gær eftir 1-4 tap gegn Sindra frá Hornafirði.

Liðin höfðu bæði tryggt sér sæti í 2. deild fyrir leikinn, Ægir sló Magna út í undanúrslitum og Sindri lagði Leikni Fáskrúðsfirði.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Milan Djurovic kom Ægi yfir strax á 6. mínútu. Sindri jafnaði hálftíma síðar og staðan var 1-1 í hálfleik.

Sindramenn létu sverfa til stáls í síðari hálfleik og fóru betur með sín færi. Þeir komust í 1-2 á 64. mínútu og bættu svo við tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum og gerðu þar með út um leikinn.