Ægir ekki í úrslitakeppnina

Ægismenn misstu af sæti í úrslitakeppni 3. deildar karla í knattspyrnu með 6-3 tapi gegn Létti í Breiðholti í kvöld.

Leikurinn byrjaði mjög vel fyrir Þorlákshafnarliðið sem hafði algjöra yfirburði fyrstu 25 mínútur leiksins. Michael Jónsson og Alfreð Elías Jóhannsson komu Ægi í 0-2 en þá hrundi leikur liðsins eins og spilaborg. Léttir skoraði þrjú mörk á skömmum tíma undir lok fyrri hálfleiks og leiddi 3-2 í hálfleik.

Heimamenn komust svo fljótlega í 4-2 í seinni hálfleik en Milan Djurovic minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu um miðjan hálfleikinn. Ægismenn reyndu að berjast fyrir sínu en virkuðu andlausir á köflum og Léttismenn unnu að lokum sannfærandi 6-3 sigur.

Léttir fór í toppsæti riðilsins með sigrinum og hefur 26 stig en KV er í 2. sæti með 25 stig og leik til góða. KFR er í 3. sæti með 22 stig og á ennþá möguleika á sæti í úrslitakeppninni en Rangæingar taka á móti KV á Hvolsvelli á morgun.

Fyrri greinJón og Sigurjón skammt frá toppnum
Næsta greinFjölbreyttar sýningar á Blómstrandi dögum