Ægir eina sigurliðið

Ægir var eina sunnlenska sigurliðið í dag þegar keppni hófst í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu. Ægir lagði Tindastól á meðan KFR tapaði fyrir Njarðvík og Hamar gegn Reyni Sandgerði.

Ægismenn lentu undir á 10. mínútu gegn Tindastóli en Matthías Björnsson jafnaði fyrir Ægi á 29. mínútu. Daníel Rögnvaldsson kom Ægi í 1-2 á 41. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Tómas Aron Tómasson og Fannar Davíðsson bættu við mörkum fyrir Ægi í síðari hálfleik og tryggðu liðinu öruggan sigur.

Njarðvík komst yfir gegn KFR á 18. mínútu en Guðmundur Garðar Sigfússon jafnaði metin á 33. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik. Njarðvíkingar gerðu svo út um leikinn með þremur mörkum á síðstu þrettán mínútum leiksins.

Hamar komst í 0-1 gegn Reyni S. á 6. mínútu með marki frá Ingþóri Björgvinssyni. Reynir jafnaði fimm mínútum síðar en Markús Sigurðsson kom Hamri aftur yfir á 16. mínútu. Sú forysta stóð stutt því Reynir jafnaði á 20. mínútu og meira var ekki skorað í fyrri hálfleik. Reynismenn skoruðu svo þrjú mörk í síðari hálfleik án þess að Hvergerðingar næðu að svara fyrir sig.