Ægir burstaði Berserki og fór aftur á toppinn

Ægismenn unnu virkilega góðan sigur á Berserkjum í toppbaráttu A-riðils 3. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur voru 5-0 í Þorlákshöfn.

Leikurinn var ekki nema fimm mínútna gamall þegar Matthías Björnsson kom Ægismönnum yfir með rándýru marki. Eftir barning í teignum náði Matthías að skalla boltann fallega í netið eftir að markvörður Berserkja hafði varið boltann út í teiginn þar sem Matthías lúrði á fjærstöng.

Eftir markið einkenndist leikurinn af stöðubaráttu þar sem bæði lið áttu álitlegar sóknir. Ægir hafði þó undirtökin lengst af og á 27. mínútu kom Predrag Dordevic þeim í 2-0. Á lokamínútu fyrri hálfleiks vildu Berserkir fá vítaspyrnu þegar sóknarmaður þeirra var klipptur niður í teignum. Gestirnir höfðu heilmikið til síns máls en annars góður dómari leiksins flautaði ekki og staðan var 2-0 í hálfleik.

Ægismenn vörðust skipulega í seinni hálfleik en Berserkir sóttu á mörgum mönnum og það kom í bakið á þeim þar sem Ægismenn eiga skæða sóknarmenn sem leiðist ekki að hlaupa hratt. Arilíus Marteinsson er þó ekki sá hraðskreiðasti en silfurrefurinn skoraði þriðja mark Ægis á 54. mínútu.

Þorlákshafnarliðið sigldi sigrinum svo í höfn með góðum mörkum í uppbótartíma frá Inga Rafni Ingibergssyni og Magnúsi Helga Sigurðssyni. Mark Inga Rafns var sérlega glæsilegt en hann stökk hæð sína í loft upp, rúma 160 sentimetra, til þess að skora með gullfallegum skalla á 92. mínútu og þremur mínútum síðar innsiglaði Magnús Helgi sigurinn með fimmta markinu.

Ægismenn hafa nú 19 stig að loknum tíu leikjum og sitja í toppsætinu, með betra markahlutfall en Berserkir, sem einnig hafa 19 stig. Sindri, Léttir og KFS koma þar á eftir og eiga leik til góða en allt eins gæti farið að fjögur lið séu jöfn í 1.-4. sæti með 19 stig þegar tíundu umferðinni lýkur.