Ægir bjargaði sér í lokaumferðinni

Ægismenn unnu góðan sigur á Njarðvík í 2. deild karla í knattspyrnu í dag og björguðu sér þar með frá falli úr deildinni.

Ægir og Njarðvík gátu bæði fallið þegar leikir dagsins hófust en þrátt fyrir tapið héldu Njarðvíkingar sæti sínu. Tindastóll féll hins vegar niður í 3. deild ásamt Dalvík/Reyni en Stólarnir töpuðu fyrir Aftureldingu í dag.

Í rokinu í Þorlákshöfn komst Njarðvík yfir strax á 6. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. Ægismenn léku með vindinn í bakið í seinni hálfleik og þeir nýttu sér hann til hins ítrasta. Strax í upphafi seinni hálfleiksins skoraði Ragnar Olsen, markvörður Ægis, beint úr útsparki og skömmu síðar kom Kristján Vilhjálmsson Ægi í 2-1 með marki frá eigin vallarhelmingi.

Kristján Hermann Þorkelsson skoraði þriðja mark Ægis á 75. mínútu en Njarðvíkingar minnkuðu muninn skömmu síðar. Ingvi Rafn Óskarsson innsiglaði svo 4-2 sigur Ægis í uppbótartíma og þeir gulklæddu fögnuðu vel.

Ægir lauk keppni í 9. sæti með 24 stig, Njarðvík varð í 10. með 23 stig en Tindastóll féll með 22 stig.

Fyrri greinÖruggur sigur Selfyssinga
Næsta greinEggert Valur: Virkt íbúalýðræði – forsenda farsælla ákvarðana