Ægir áfram í fallsæti

Ægir tapaði 2-1 þegar liðið mætti KF í sannkölluðum sex stiga leik í fallbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í dag.

Heimamenn komust yfir á 42. mínútu og bættu við öðru marki strax í upphafi síðari hálfleiks.

Kristján Hermann Þorkelsson minnkaði muninn fyrir Ægi á 76. mínútu en nær komust Ölfusingar ekki.

Ægir er áfram í fallsæti, 11. sæti deildarinnar með 14 stig en KF skaust upp í 7. sætið með 18 stig. Ægismenn þurfa þó ekki að örvænta strax því liðið er í þéttum pakka liða í neðri hlutanum þegar sex umferðir eru eftir.

Liðið mætir Hetti á útivelli í næstu umferð en fær svo Tindastól í heimsókn í næsta heimaleik og er sá leikur einn af úrslitaleikjunum í botnbaráttunni.

Fyrri grein„Ungu strákarnir sýndu hjarta“
Næsta greinVatnsskortur í Flóahreppi