Æfir við bestu aðstæður í Svíþjóð

Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, flytur til Falun í Svíþjóð eftir áramót þar sem hún mun æfa undir stjórn hins þekkta þjálfara Benke Blomkvist.

Aðalgreinar Fjólu eru 100 og 400 metra grindahlaup en hún er Íslandsmeistari í þeim greinum auk þess sem hún er handhafi Íslandsmeistaratitilsins í hástökki, sjöþraut og fimmtarþraut innanhúss. Fjóla stundar nám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri en hún verður í skiptinámi við Högskolan Dalarna.

„Mig hafði lengi dreymt um að fara út en hjólin fóru ekki að snúast fyrr en ég hitti Véstein Hafsteinsson, frjálsíþróttaþjálfara, síðasta vor. Hann skipulagði keppnisferð fyrir mig síðasta sumar og skoðaði með mér mögulega staði sem ég gæti æft á. Við vorum búin að skoða fleiri lönd en það sem réð því að ég valdi Falun í Svíþjóð er að þar eru bestu grindahlaupsþjálfararnir í Svíþjóð auk þess sem ég get haldið áfram mínu námi,“ sagði Fjóla í samtali við sunnlenska.is.

Benke Blomkvist er heldur enginn aukvisi þegar kemur að þjálfun en hann þjálfar grindahlaupara hjá sænska frjálsíþróttasambandinu auk þess sem hann þjálfaði Kallur systurnar, Susönnu og Jenny, en Susanna á heimsmetið í 60 m grindahlaupi innanhúss auk þess sem hún er þrefaldur Evrópumeistari í grindahlaupum innan- og utanhúss. Benke hefur einnig þjálfað núverandi Evrópu- og heimsmeistara karla í 400 m grindahlaupi, Walesverjann Dai Greene.

„Ég fer fyrst og fremst út til þess að æfa við betri aðstæður og fá betri keppni í mótum. Ég hafði líka hug á að keppa meira erlendis og þá er ódýrara fyrir mig að búa úti í staðinn fyrir að vera á stöðugum ferðalögum frá Íslandi,“ segir Fjóla sem þarf ekki að kosta æfingagjöld í Svíþjóð þar sem hún fær fullan íþróttastyrk frá Íþróttasambandi Dalanna.

„Ég mun keppa á mótum í Svíþjóð en stefni á það að koma heim næsta sumar og æfa og keppa á Íslandi. Ég veit ekki hvað ég verð lengi úti en til þess að ná árangri með þessari þjálfun þá þarf ég að vera í a.m.k. tvö ár í Svíþjóð,“ segir Fjóla sem hefur sett markið á Ólympíuleikana í Brasilíu árið 2016.

„Ég er búin að setja mér það markmið og æfingarnar í Svíþjóð eru skref í áttina að því. Ég er búin að æfa á Akureyri síðustu þrjá vetur og fá góða þjálfun og bæta mig mikið hjá Gísla Sigurðssyni sem þjálfaði m.a. Jón Arnar Magnússon á sínum tíma. Gísli hefur kennt mér mikinn aga og komið mér í betra form. Þegar Sigurður Einarsson byrjaði að þjálfa á Selfossi þá smitaði hann mig af afrekshugsun og þá áttaði ég mig á því að mig langaði mikið meira að ná árangri. Þá fór ég að mæta betur á æfingar með stærri markmið. Og úr því að ég er byrjuð að tala um þjálfarana mína þá er það Sigríði Önnu Guðjónsdóttur að þakka að ég byrjaði í frjálsum. Hún sá mig í skólaíþróttum í grunnskóla og hvatti mig til þess að byrja að keppa og þjálfaði mig fyrstu árin.“

Fjóla heldur út þann 16. janúar og hún er mjög spennt fyrir því að reyna fyrir sér á nýjum slóðum. „Þetta er mjög spennandi fyrir mig og það verður gaman að takast á við svona krefjandi verkefni.“