Zelsíuz fékk hvatningarverðlaun SAMFÉS

Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz. Ljósmynd/Gunnar Páll Pálsson

Félagsmiðstöðin Zelsíuz í Árborg hlaut hvatningarverðlaun SAMFÉS á aðalfundi samtakanna á dögunum.

Verðlaunin voru veitt fyrir verkefnið sérstuðningur í Zelsíuz en umsjónarmaður verkefnisins er Arnar Helgi Magnússon.

„Verkefnið snýst um að efla börn og unglinga félagslega og styrkja persónulega. Síðustu ár hefur verkefnið vaxið jafnt og þétt og hefur sannað gildi sitt margoft í hjálp sinni til fjölmargra einstaklinga,“ segir Arnar Helgi.

„Þó að félagsmiðstöðin haldi utan um verkefnið og sinni því, þá er lykillinn að góðum árangri samvinna fjölda stofnanna í Árborg sem hafa það allar að leiðarljósi að bæta og styrkja stöðu barna og unglinga í sveitarfélaginu,“ bætir Arnar Helgi við.

Hvatningarverðlaun Samfés eru veitt á aðalfundi samtakanna ár hvert. Markmið þeirra er að hvetja og vekja athygli á því öfluga starfi sem fer fram í félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum um land allt. Við val er haft til hliðsjónar að verkefnið sé öðrum til eftirbreytni og hvatning til góðra verka.

Fyrri greinBikarmeistararnir mæta KR
Næsta greinBólusett í FSu í sumar