Ytri-Rangá komin vel yfir 2.000 laxa

Rangárnar bera höfuð og herðar yfir aðrar laxveiðiár það sem af er sumri en í liðinni viku fór Ytri-Rangá yfir 2.000 laxa markið.

Síðustu sjö daga veiddust þar 829 laxar og eru samtals 2.549 laxar komnir á land, sem er töluvert meira en tvöfaldur afli miðað við sama tíma í fyrra.

Eystri-Rangá er í 2. sæti yfir aflahæstu árnar með 1.633 laxa en þar veiddist 191 lax síðustu vikuna.

Veiði í Ölfusá hefur verið mjög góð. Þar er 171 lax kominn á land, um þrjátíu löxum meira en á sama tíma í fyrra. Sumarið 2015 var besta veiðisumarið í Ölfusá í rúma fjóra áratugi.

Einnig hefur verið fín veiði í Affalli í Landeyjum og Þverá í Fljótshlíð í júlí. Affallið er komið í 105 laxa og Þverá í 62 laxa.