Yrði verk upp á nokkra milljarða króna

Sveitastjórnir nokkurra sunnlenskra sveitarfélaga hafa undanfarið skoðað möguleika þess að ljósleiðaravæða sveitarfélögin og eru nú taldar vaxandi líkur á að ráðist verði í slíkt verkefni innan ekki langs tíma.

Að sögn Gunnars Þorgeirssonar, oddvita Grímsnes- og Grafningshrepps og nýkjörins formanns SASS, þá er hér um að ræða næsta stórvirki í samgöngumálum Sunnlendinga. Hér sé um að ræða gríðarlega mikilvægt mál til þess að tryggja byggð í sveitum Suðurlands.

„Það er auðvitað spurning hve langt sveitarfélög eiga að ganga en það er engin spurning að tækni sem þessi er nauðsynleg til þess að tryggja gæði samfélagsins og að fólk geti áfram dvalið hér,” sagði Gunnar í samtali við Sunnlenska.

Grímsnes- og Grafningshreppur lét á síðasta ári gera fyrir sig skýrslu þar sem leitað var svara við hvernig tæknilegri útfærslu yrði háttað við ljósleiðaravæðingu. Í framhaldi þess var verkfræðistofan Efla fengin til þess að halda starfinu áfram og gera grófa kostnaðaráætlun. Hún hljóðar upp á um 200 milljónir króna fyrir Grímsnes- og Grafningshrepp einan.

Ljóst er því að ef ráðist yrði í verkið með þeim hætti sem hugur manna stendur til þá yrði um mjög kostnaðarfreka framkvæmd að ræða, jafnvel upp á nokkra milljarða króna.

Í framhaldi af þessu var boðað til fundar með fulltrúum nokkurra sveitarfélaga í sumar. Þar mættu fulltrúar Ásahrepps, Flóahrepps, Bláskógarbyggðar, Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og síðan fulltrúar frá Hvalfjarðar og Skorradalshreppi sem vilja að sögn Gunnars fá að fylgjast með framvindu verksins.

Gunnar segir að engin útilokun fylgdi því að þessi hópur væri að skoða málin saman enda væru þessar áætlanir að hluta til í takt við ályktanir í samgöngumálum á nýafstöðnu ársþingi SASS.

Að sögn Gunnars var ákveðið að bíða og sjá hvernig framkvæmd Skeiða- og Gnúpverjahrepps gengi fyrir sig en hún er í gangi núna. Þá sagði hann að tæknibreytingar væru hraðar.

Eydís Þ. Indriðadóttir, oddviti Ásahrepps, sagði að hér væri um að ræða mjög áhugavert verkefni. Hún sagðist telja eðlilegt að ríkisvaldið kæmi með einum eða öðrum hætti að verkefninu ef í það yrði ráðist, meðal annars með framlagi úr Fjarskiptasjóði.

Fyrri greinLeikur Selfoss hrundi í seinni hálfleik
Næsta greinEkki gert ráð fyrir miklum gjaldskrárhækkunum