Ýmsar hugmyndir á lofti

Ýmsar hugmyndir eru á lofti varðandi nýtingu Sandvíkurskóla og hefur m.a. verið rætt um að koma þar á stofn einhverskonar þekkingarvettvangi.

Innan SASS hefur einnig verið rætt um þann möguleika að færa starfsemi samtakanna í skólann í tengslum við starfsemi Markaðsstofu Suðurlands og Háskólafélagsins.

Sömuleiðis eru hugmyndir uppi um að færa bókasafnið á Selfossi og héraðsskjalasafnið úr gamla kaupfélags­húsinu í skólann og gera meira úr upplýsingamiðstöð ferðamanna og tengja húsnæðið betur við Tryggvagarð. Með því fengist betri aðstaða til hópvinnu í bókasafninu sem nemendur í skólunum í kring gætu nýtt sér, þar á meðal nemendur FSu, en nokkuð þröngt er um bókasafnið í fjölbrautaskólanum.

Að sögn Söndru Dísar Hafþórsdóttur, formanns fræðslunefndar hefur engin afstaða verið tekin til þessara hugmynda og verða þær ræddar á íbúafundi í Tryggvaskála á laugardagsmorgun.