Ýmsar framkvæmdir við götur og gangstéttir

Malbikað á Selfossi. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Vegfarendur um Fossheiði á Selfossi hafa tekið gleði sína á ný eftir að gatan var malbikuð fyrr í mánuðinum. Ekki tókst að ljúka við að malbika Fossheiðina síðasta haust, vegna óhagstæðs veðurs fyrir slíkar framkvæmdir.

Framundan eru fleiri framkvæmdir á vegum bæjarins svo sem malbikun á Tryggvagötu frá hringtorgi að Engjavegi, Álfsstétt á Eyrarbakka, gangstéttar við Hásteinsveg á Stokkseyri, lagfæringar á nokkrum „snúningshausum“ í botnlöngum, lagnaframkvæmdir meðfram sunnaverðum Engjavegi frá Kirkjuvegi að Tryggvagötu, gerð gangstétta í Hagalandi og frágangur við gatnatengingar við viðbyggingu við Sunnulækjarskóla, svo dæmi séu nefnd.

Samningur er við verktaka um malbikunarframkvæmdir fyrir 40 milljónir króna, (yfirlagnir), um 5 milljónir króna fara í gangstéttir á Stokkseyri og annað eins á Selfossi.

Einnig verður sömu fjárhæð varið í að halda áfram með hellulögn gangstétta við Eyrargötu á Eyrarbakka, gengið verður frá lagnaskurði í Austurvegi, en væntanlega verður haldið áfram með þann skurð að spennistöð við Austurveg 60a.