Ýmis verkefni lögreglu

Sextíu mál voru bókuð hjá lögreglunni á Hvolsvelli síðustu vikuna.

Fimm ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka of hratt en sá sem hraðast ók var á 122 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.

Bílvelta varð sl. mánudag á Þjóðvegi 1 við afleggjarann í Meðalland í Skaftárhreppi. Þrír útlendingar voru í bílnum og voru meiðsli þeirra ekki alvarleg. Ökumaðurinn missti stjórn á bílnum í slæmri færð.

Bifreið var ekið inn í hrossastóð við bæinn Giljar í Mýrdal seint á þriðjudagskvöld í myrkri og slæmu skyggin. Ekki urðu slys á mönnum en bifreiðin skemmdist töluvert. Hrossin hlupu út í myrkrið og hefur ekkert þeirra fundist sært eftir atvikið.

Tveir ökumenn voru aðstoðaðir í vikunni þar sem þeir höfðu fest bifreiðar sínar í snjó. Var þetta á leið í Laka, Skaftárhreppi og á Landvegi skammt frá Þjórsárdalsvegi. Björgunarsveitir voru sendar á vettvang og leystu þær úr vanda ökumannanna.

Fyrri greinFastir í jepplingi á Kjalvegi
Næsta greinFimm verðlaun á Selfoss