Yfirlýsing frá Páli Reynissyni

Páll Reynisson, forstöðumaður Veiðisafnsins á Stokkseyri, sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í dag en hann var handtekinn við Veiðisafnið á sunnudagskvöld.

„Af gefnu tilefni játa ég að mér urðu á persónuleg mistök síðastliðið sunnudagskvöld sem ég ber einn ábyrgð á. Ég bið þá fyrirgefningar sem ég kann að hafa hryggt eða valdið ótta eða vonbrigðum með hegðun minni. Ég hef ákveðið að leita mér hjálpar við vanda mínum og er nú á leiðinni í áfengismeðferð.

Mistök mín eru Veiðisafninu á Stokkseyri óviðkomandi. Það verður áfram opið og þar geta safngestir áfram notið þess að skoða fjölbreyttasta safn villtra dýra á Íslandi sér til fróðleiks og ánægju.

Fleira hef ég ekki um mál þetta að segja að svo stöddu og mun ég ekki tjá mig frekar við fjölmiðla.

Virðingarfyllst,
Páll Reynisson.“