Yfirborð Ölfusár hækkar vegna ísstíflu

Landslagið í Ölfusá er gjörbreytt ofan við Efri-Laugardælaeyju. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ísstífla hefur myndast í Ölfusá við Efri-Laugardælaeyju, líklega vegna grunnstinguls, og hefur yfirborð hennar hækkað um rúman metra þar fyrir ofan. Á austurbakkanum flæðir áin yfir veginn í Ósabotna þannig að ófært er að borholum Selfossveitna við Ósabotna.

Áin rennur að hluta yfir stífluna við Efri-Laugardælaeyju og myndar þar ansi tilkomumikinn foss, um tveggja metra háan, og hafa margir lagt leið sína þangað í dag til að skoða.

Nýi fossinn í Ölfusá er tilkomumikill. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Mjög sérstakt ástand
Sunnlenska.is skoðaði stífluna í dag og fór síðan upp í Ósabotna, ofan við Laugardæli, og hitti þar Harald Þórarinsson, bónda í Laugardælum, sem sagðist aldrei hafa séð aðstæður sem þessar í ánni.

„Ég hef aldrei séð stíflu myndast í ánni þarna. Þetta er mjög sérstakt ástand og það hefur talsvert mikið vatn safnast saman fyrir ofan fyrirstöðuna. Það hækkar ansi skarpt þarna,“ segir Haraldur.

Áin er frosin svo að vatn rennur ekki yfir veginn en frosið yfirborðið virðist lyftast jafnt og þétt.

„Mér líst ekki á það ef það kæmi asahláka eða þá ef áin myndi ryðja úr sér þessari stíflu á einhvern hátt. Það gæti orðið hvellur og þá þarf að huga að því hvað gerist á Selfossi, það þarf að vakta þetta,“ sagði Haraldur.

Haraldur Þórarinsson í Laugardælum á veginum upp í Ósabotna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfossveitur fylgjast vel með
Helstu borholur Selfossveitna eru á Lambhagatá við Ósabotna og í samtali við sunnlenska.is sagði Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri, að áin hefði ekki áhrif á rekstur veitnanna eins og er, en vel væri fylgst með henni.

„Borholuhúsin standa hærra og eru ekki í flóðahættu en ef það kæmi upp bilun þá væri erfitt fyrir okkur að komast þangað. Holunum er fjarstýrt og við höfum fengið aðstoð frá björgunarfélaginu til að koma mönnum á staðinn ef aðstæður eru þannig,“ sagði Sigurður.

Í samtali við sunnlenska.is sagði Einar Sindri Ólafsson, hjá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands, að grunnstingull myndist þegar áin frýs frá botninum og upp. Krap og jakaburður geta svo orðið til þess að árfarvegurinn stíflist.

Ófært er að borholum Selfossveitna í Ósabotnum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ísstíflan í Ölfusá. Myndin er tekin á vesturbakkanum en austanmegin sést í golfvöllinn við Svarfhól. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Margir hafa lagt leið sína að stíflunni í dag, en ekki er fólksbílafært eftir veginum að henni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHallaði undan fæti í seinni hálfleik
Næsta grein21 milljón króna í covid-styrki á Suðurlandi