Yfir sjötíu kærðir fyrir hraðakstur

Í liðinni viku var 71 ökumaður kærður fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Flestir voru á hraðabilinu frá 121 til 130 km/klst þar sem leyfður hraði er 90 km/klst.

Lögreglan hvetur ökumenn til þess að virða reglur um hámarkshraða og hafa í huga að eftirlit lögreglu með þessum brotum er viðvarandi allan sólarhringin.

Í dagbók lögreglunnar er þetta skýrt með einfaldri viðmiðunarreglu, þannig að ef tekst að lækka meðal ökuhraða á 90 km vegi um 1 km minnka líkurnar á alvarlegu umferðarslysi um 3%. „Það er því til mikils að vinna, nóg tekur umferðin samt,“ segir í dagbókinni.

Þar kemur einnig fram að tveir voru kærðir vegna meintrar ölvunar við akstur, báðir á þjóðvegi 1, annar á Breiðamerkursandi og hinn við Kirkjubæjarklaustur. Í báðum tilfellum erlendir ferðamenn.

Fyrri greinDagur Fannar bætti 66 ára gamalt HSK met
Næsta greinÞrjú slys í dagbók lögreglunnar