Yfir 1500 vinnustundir að baki

Snemma á þessu ári hófu tveir menn á Selfossi að byggja torfærubíl frá grunni. Sex mánuðum og yfir 1500 vinnustundum síðar hefur nýi bíllinn litið dagsins ljós.

„Við höfum unnið í honum á kvöldin og um helgar síðan í janúar. Svo fór páskafríið eins og það lagði sig í hann,“ segir Haukur Þorvaldsson, en bíllinn, sem heitir Jóker er í hans eigu. Auk Hauks sáu þeir Sigurður Bjarnason, Ólafur Björnsson og Sævar Jónsson um að byggja bílinn.

Bíllinn var gangsettur í fyrsta skipti á fimmtudaginn og fór Haukur með hann beint til Vestmannaeyja til að taka þátt í torfærukeppni um helgina. Hann viðurkennir að það hafi verið full fljótt þótt að ágætlega hafi gegnið. „Við lentum í smá vandræðum með stýrið. Annars gekk þetta nokkuð vel,“ segir Haukur.

Bíllinn er þó ekki einungis hugsaður sem keppnisbíl. Bróðir Hauks, Hafsteinn, byrjaði síðasta sumar með ferðaþjónustuna OffroadIceland. Þar býðst fólki að upplifa hvernig er að sitja í torfærubíl, eitthvað sem marga langar að prófa. Hingað til hafa þeir aðeins notast við einn bíl, Torfuna, en núna hafa þeir aukið við þjónustuna.

Erlendar sjónvarpsstöðvar hafa sýnt þessari ferðaþjónustu mikinn áhuga. Þáttastjórnendur hins vinsæla, breska bílaþáttar Fifth gear eru meðal þeirra sem hafa tekið viðtal við strákana.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu