Yfir 150 ný hraðhleðslustæði innan tveggja ára

Ljósmynd/Tesla

N1 og Tesla og hafa undirritað rammasamning sem felur í sér áform um uppbyggingu hraðhleðslustöðva við þjónustustöðvar N1 víðs vegar um landið. Markmið N1 með samningsgerðinni er að auka verulega þjónustu við notendur rafbíla og byggja upp víðfeðmt net hraðhleðslustöðva á næstu tveimur árum samhliða uppbyggingu Tesla.

Uppbygging Tesla verður við þjónustustöðvar N1 víða um land, meðal annars á Kirkjubæjarklaustri, í Vík í Mýrdal og Hveragerði. Samtals eru áform um nítján nýja hraðhleðslugarða og mun hraðhleðslustæðum við þjónustustöðvar N1 fjölga um meira en 150 á landinu á þessu tímabili.

Með fyrirhugaðri uppbyggingu vill N1 leitast við að tryggja aðgengi allra að öruggri rafhleðslu, óháð bíltegund, greiðsluleið og álagstoppum og framfylgja þeirri stefnu félagsins að allir eigi að geta hlaðið bílinn sinn með vissu um stuttan biðtíma, örugga virkni og einfalt notendaviðmót um land allt. Hraðhleðslustöðvar Tesla verða opnar öllum rafmagnsbílum.

Hleðslukvíði á ekki að aftra neinum
„Ef við ætlum að ná raunverulegum árangri í orkuskiptum á Íslandi þá er eitt af lykilskrefunum að hraða uppbyggingu rafhleðslunets um land allt. Hleðslukvíði á ekki að vera hugtak sem aftrar einstaklingum og fyrirtækjum að veðja á nýjan orkumiðil. Uppbygging rafhleðsluinnviða hefur gengið allt of hægt en með þessum áformum um uppbyggingu víðfems rafhleðslunets munum við í N1 tryggja að allir geti ferðast um landið áhyggjulaust og um leið notið þeirrar góðu þjónustu sem við veitum á þjónustustöðvum okkar,“ segir Ýmir Örn Finnbogason, framkvæmdastjóri N1.

Fyrri greinBryndís Eva íþróttamaður Þjótanda 2023
Næsta greinSet ehf sett í söluferli