Yarisinn fundinn

Toyota Yaris bifreiðin sem lögreglan á Selfossi hefur lýst eftir frá því í febrúar fannst í gær í Norðlingaholtinu í Reykjavík.

Bifreiðinni var stolið úr bílageymslu fjölbýlishúss við Fossveg 4 á Selfossi einhvern tímann á tímabilinu frá 18. til 20. febrúar. Eigandi bifreiðarinnar er eldri kona og var afnotamissir hennar af bifreiðinni henni afar þungbær.

Ekkert spurðist til bifreiðarinnar fyrr en í gær en lögreglan hafði ítrekað lýst eftir henni og nú síðast sl. mánudag þar sem almenningur var hvattur til þess að svipast um eftir bifreiðinni í næsta nágrenni við sig. Leitin bar loksins árangur og fannst bifreiðin, sem fyrr segir í Norðlingaholtinu.