
Wolt hefur nú hafið samstarf við Ísbúð Huppu og geta viðskiptavinir Huppu á Selfossi og víðar nú fengið sinn uppáhalds Huppu ís sendan beint heim að dyrum með Wolt.
„Íslendingar elska ísinn sinn alveg sama hvernig viðrar og Huppa er einn vinsælasti ís staður landsins,“ segir Jóhann Már Helgason, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Wolt á Íslandi. „Við hjá Wolt erum mjög ánægð með að vera loksins í samstarfi við Huppu. Á sama hátt og við tryggjum að hamborgarinn og pizzan séu enn heit þegar þú færð sendinguna í hendurnar, er notuð aðferð til að tryggja að ísinn sé enn frosinn þegar hann kemur heim að dyrum.“
Gunnar Már Þráinsson, framkvæmdastjóri Huppu, segir Huppufjölskylduna jafn spennta fyrir samstarfinu.
„Við erum alltaf að leita að skemmtilegum og þægilegum leiðum til að koma ísnum okkar til fleira fólks,“ segir Gunnar Már. „Með því að taka höndum saman við Wolt geta viðskiptavinir okkar notið Huppu hvar sem er; hvort sem þeir eru heima, í vinnunni eða ef þá langar einfaldlega í eitthvað kalt og sætt.“
Á matseðlinum er gæðaís Huppu, mjólkurhristingar og kaffidrykkir.
