Wiktor er fyrsti Sunnlendingur ársins

Fyrsta barnið sem kom í heiminn á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi á þessu ári leit dagsins ljós kl. 11:42 í gærmorgun, þann 4. janúar.

Það var stór og hraustur drengur frá Þorlákshöfn sem hefur fengið nafnið Wiktor. Foreldrar hans eru Aneta Beczkowska og Michal Cwalina. Fyrir eiga þau soninn Olivier sem nú er orðinn fimm ára stóri bróðir.

Wiktor var 4.340 gr og 52 sm við fæðingu en settur fæðingardagur hans var 9. janúar. Aneta sagði í samtali við sunnlenska.is að fæðingin hefði gengið vel fyrir sig, drengurinn væri ljúfur og góður og þau væru ánægð með þá góðu þjónustu sem þau hafi fengið á fæðingardeildinni á Selfossi.

Eftir smá bið eftir fyrsta barni ársins á fæðingardeildinni á Selfossi fæddust tvö börn í gær, þann 4. janúar, en um klukkan 22 í gærkvöldi kom stúlkubarn í heiminn á deildinni.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Ekið á kyrrstæða bíla
Næsta greinPétur hættur hjá Sparisjóðnum