VSSÍ gaf HSu gæslutæki

Félagar í Verkstjórasambandi Íslands komu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í dag og færðu bráðamóttökunni á Selfossi 900 þúsund króna gjöf til kaupa á gæslutæki.

Tækið er af gerðinni B40 og er notað til að fylgjast með lífsmörkum sjúklinga á bráðamóttökum og víðar. Lífsmörk geta verið hjartsláttur (hjartarit), blóðþrýstingur, öndun, súrefnismettun o.fl. Tækið er létt og auðvelt í meðförum. Það kemur að góðum notum á Bráðamóttökunni, en einnig við flutning sjúklinga af eða á deild, á skurðstofu eða á vöknun og víðar. Þetta auðveldar þjónustu við sjúklinga og gerir hana öruggari.

Gjöfin var afhent í tilefni þess að 36. þing Verkstjórasambands Íslands er haldið á Selfossi um helgina, en sjúkrasjóður V.S.S.Í. hefur látið gott af sér leiða á þeim stöðum sem þing hafa verið haldin og gefið til heilsustofnunar gjöf að ósk viðtakanda.

Vörður, félag stjórnenda á Suðurlandi, er aðildarfélag VSSÍ.

Fyrri greinÁrborg skoraði átta
Næsta greinHamar tapaði í Breiðholtinu