„Vörur sem færa gleði og vellíðan í lífið“

Dagrún Guðlaugsdóttir í Litlu garðbúðinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í kjallaranum á Sjafnarblómum er eitt best geymda leyndarmál Selfoss. Það fer ekki mikið fyrir Litlu garðbúðinni og er auðvelt fyrir fólk að halda að hún sé hluti að Sjafnarblómum, en svo er ekki.

„Litla garðbúðin er lífstílsverslun sem er að mörgu leiti einstök. Við heilluðumst af litlum búðum sem finna má víða í Skandínavíu með áherslu á vandaðar vörur og góða hönnun fyrir garðinn, heimilið og fjölskylduna og það hefur verið okkar leiðarljós,“ segir Dagrún Guðlaugsdóttir, annar eigandi verslunarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

Dagrún rekur verslunina ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Jónssyni. Hún segir að það hafi alltaf verið metnaður þeirra að bjóða upp á gæðavörur á sem besta verðinu. „Vöruúrvalið er mjög fjölbreytt en á það sameiginlegt að færa gleði og vellíðan í lífið.“

Aðspurð hvaðan hún fái helst innblástur fyrir verslunina segir Dagrún þau hjónin heimsæki sýningar erlendis og fylgist með í blöðum og á netinu. „Okkar helstu birgjar koma reglulega með nýjungar og danska blaðið Isabellas veitir okkur oft innblástur. En við höldum líka í ákveðna klassík sem við köllum „garðbúðarlegt“ þannig að við erum bæði með það nýjasta og annað sem breytist hægar,“ segir Dagrún.

Eitt mesta fræúrval landsins
„Garðbúðin hefur byggst upp og þróast á mörgum árum. Mig minnir að það hafi verið vorið 2010 sem við hófum að flytja inn vörur frá sænska fyrirtækinu Nelson Garden og kringum það stofnuðum við vefverslun sem frá upphafi hefur meðal annars boðið upp á eitt mesta úrval af fræjum á landinu,“ segir Dagrún.

Litla garðbúðin opnaði svo á Selfossi vorið 2018. „Við tókum við rekstri á Sjafnarblómum þegar Kolla flutti til Danmerkur fyrir réttum þremur árum. Þróunin varð sú að okkur fannst nauðsynlegt að byggja upp á einum stað. Húsnæðið finnst okkur mjög heillandi og hæfa búðinni vel en það eru ákveðin forréttindi að vinna í þessu fallega gamla húsi sem geymir svo mikla sögu og sál. Hér í kjallaranum líður okkur afar vel. Svo er Selfoss auðvitað í mikilli uppbyggingu og með stórar sumarhúsabyggðir í nágrenninu og ákveðin tækifæri sem liggja í því,“ segir Dagrún.

Dótahorn fyrir yngstu kynslóðina
Dagrún segir að Sunnlendingar hafi tekið versluninni vel. „Það eru sífellt fleiri að uppgötva okkur þótt það mættu gjarnan vera fleiri sem leggðu leið sína til okkar. Við bættum við dótahorni í vor sem hefur vakið lukku en Sjafnarblóm rak dótabúð í kjallaranum á árum áður og okkur langaði að endurvekja það þótt í minna mæli sé.“

Að sögn Dagrúnar eru sumarbústaðareigendur þeirra tryggustu viðskiptavinir. „Margir af okkar föstu viðskiptavinum úr bænum eiga bústað í nágrenninu og koma reglulega. Sumir eru að safna leirtauinu frá GreenGate og bæta reglulega í safnið og aðrir koma að sækja uppáhalds sultuna sína. Svo eru margir sem eru á leiðinni í heimsókn, afmæli, skírn eða brúðkaup og finnst gott að fá aðstoð við að velja gjafir við hæfi.“

Karlarnir áhugasamir um ræktun
„Konur eru í meirihluta okkar viðskiptavina en karlmenn koma sem betur fer líka, stundum einir en oftar með konunum,“ segir Dagrún og bætir því við að þeir séu margir áhugasamir um ræktun, sérstaklega yngri mennirnir og hrifnir af sælkeravörunum þeirra.

„Nú rennur brátt upp tími haustlaukanna en við flytjum inn úrvals haustlauka í ótal tegundum sem vert er að kíkja á. Hægt að fylgjast með þegar þeir koma á Facebook síðunni okkar. Við sendum líka til þeirra sem hafa ekki tök á að heimsækja okkur eða vilja njóta þægindanna að fá sent,“ segir Dagrún að lokum.

Fyrri greinTómatar og Tangó í Friðheimum
Næsta greinFjóla Signý og Dagur Fannar Íslandsmeistarar í fjölþrautum