Vörubíll eyðilagðist í eldsvoða

Frá vettvangi brunans í gær. sunnlenska.is/Valgeir Reynisson

Ökumaður vöruflutningabíls slapp ómeiddur þegar eldur kviknaði í bílnum á Mýrdalssandi í gærkvöldi.

„Bílstjórinn varð var við eitthvað skrítið og stoppaði og þá var kominn upp eldur í bílnum. Hann komst út en þegar við komum á vettvang þá var ökumannsrýmið alelda. Kassinn á bílnum skemmdist einnig en tengivagn sem var aftan í bílnum slapp,“ sagði Sigurður Gýmir Bjartmarsson, varaslökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu í Vík, í samtali við sunnlenska.is, en útkallið barst klukkan 20:09.

„Þetta gekk vel og við vorum tiltölulega fljótir að slökkva en það tók tíma að slökkva glæður sem leyndist í farminum í kassanum,“ sagði Sigurður en um tuttugu slökkviliðsmenn komu á vettvang, tíu frá Vík og tíu frá Klaustri.

Umferð um Suðurlandsveg var stöðvuð vegna þessa og var vegurinn lokaður í um eina og hálfa klukkustund.

Fyrri greinVésteinn og Kári hlupu í Grýlupottahlaupinu
Næsta greinHeimsmeistarinn bætti vallarmetið á Selfossvelli