Vorlestin leggur af stað hringinn

Á fimmtudag leggur Vorlestin af stað hringinn í kringum landið og er fyrsti viðkomustaðurinn Hvolsvöllur, en sama dag verður líka stoppað í Vík og á Klaustri.

Vorlestin er verkefni sem Jötunn Vélar á Selfossi stendur fyrir ásamt fjórum öðrum fyrirtækjum sem leggja land undir fót og kynna vörur og þjónustu fyrirtækjanna. Auk Jötuns eru það Lífland, Mjöll/Frigg, Landsbankinn og Skeljungur.

Alls verður stoppað á fimmtán stöðum umhverfis landið næstu sjö dagana en hringnum verður lokað á Selfossi þann 4. maí.

Þetta er þriðja árið sem Vorlestin fer um landið og hefur henni alltaf verið vel tekið og mæting gesta góð á áfangastöðunum fimmtán.

Þeir sem heimsækja Vorlestina geta tekið þátt í spurningaleik þar sem vinningarnir eru veglegir, aðalvinningurinn er utanlandsferð.

Fyrri greinGuðni Th. ræðir forsetaembættið í Húsinu
Næsta greinGrýlupottahlaup 2/2016 – Úrslit